Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 444 . mál.


1096. Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið ber að skoða í samhengi við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, 445. mál. Þessi tvö stjórnarfrumvörp tengjast og hafa verið rædd saman í nefndinni.
    Ríkisstjórnin setti nefnd á laggirnar til að móta tillögur vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við álagningu vörugjalds. Lagði nefndin til að fjármögnun yrði þannig háttað að virðisaukaskattur yrði hækkaður um hálft prósentustig. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að fara ekki þá fjármögnunarleið til að bæta ríkissjóði tekjutapið heldur leggja fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis af vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti. Í núgildandi lögum er kveðið á um að allur virðisaukaskattur sé endurgreiddur til húsbyggjenda.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar á að skila u.þ.b. 440 millj. kr. þannig að nokkurn veginn stenst á áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna breytinga á vörugjaldi og tekjuaukning þar sem minnkaðar eru endurgreiðslur virðisaukaskatts. Minni hlutinn telur að hækkun á virðisaukaskatti sé óheppilegt úrræði til að mæta tekjutapi ríkissjóðs.
    Sú aðferð, sem ríkisstjórnin leggur til í frumvarpinu, þ.e. að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis, er fráleit. Þetta leiðir til þess að byrðar vegna lækkaðs vörugjalds eru lagðar á herðar einum þjóðfélagshópi, þ.e. húsbyggjendum, en það er langt í frá að þeir séu aflögufærir til að mæta aukinni skattlagningu.
    Lækkun vörugjaldsins nær yfir marga vöruflokka þannig að það er ekki sami hópurinn sem nýtur lækkunar vörugjalds og sá sem greiðir fyrir það með minni endurgreiðslu. Þetta er því sérstök skattlagning á íbúðabyggjendur. Þetta gengur vitaskuld þvert á loforð ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu kosningar, ekki hvað síst Framsóknarflokksins sem hafði uppi stór orð um að bæta hlut húsbyggjenda. Hér eru þvert á móti lagðir stórfelldir aukaskattar á þá einstaklinga.
    Afleiðingar þess að lækka virðisaukaskattinn koma einnig fram í því að mikil hætta verður á undanskotum frá skatti og að svört atvinnustarfsemi muni aukast.
     Minni hlutinn mun greiða atkvæði gegn fjármögnunarleið ríkisstjórnarinnar, þ.e. lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda.
    Slík íþyngjandi aðgerð gagnvart húsbyggjendum og hætta á skattsvikum í kjölfarið er fráleit aðferð og staðfestir enn á ný svikin kosningaloforð núverandi ríkisstjórnarflokka.
    Að öðru leyti vísast til álits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vörugjald, 445. mál.

Alþingi, 29. maí 1996.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.